144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[17:46]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Orð ráðherra í fyrirspurnatíma Alþingis og orð margra þingmanna sem hér hafa talað vekja furðu. Fram hefur komið í máli fólks, í máli þingmanna og ráðherra, algjör hentistefna um stöðu þingsályktunartillagna. Farið er fram með orðhengilshætti, talað í lögfræðilegu slangri eitthvert mál sem enginn skilur um mjög einfaldan hlut, virðulegi forseti, um það hver staða ráðherra er og hver staða Alþingis er þegar við förum fram með ákvarðanir.

Er það til of mikils mælst að fólk tali bara hreina íslensku? Erum við að biðja um of mikið? Ég skil ekki helminginn af því sem hér fer fram, ég verð bara að viðurkenna það, út af því að hér er talað tvist og bast, algjörlega. En það lýsir því kannski hvernig málið er allt saman, það er algjörlega í uppnámi og ég næ illa utan um þessar skýringar út af því að þær eru úti um allt.

Sífellt er verið að lýsa störfum fyrri ríkisstjórnar í þessu máli öllu saman. Ég verð að segja að mér er bara nákvæmlega sama um það hvernig hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon eða Össur Skarphéðinsson töluðu á fyrra kjörtímabili eða hvað þeir sögðu. Mér er nákvæmlega sama um það. Við erum að ræða hvað þessi ríkisstjórn er að gera, við erum að ræða sviknu loforðin hennar og við skulum halda okkur við það.

Það er lúalegt og það er dapurlegur vitnisburður um innrætingu viðkomandi ráðherra og þingmanna að það réttlæti eigin gjörðir að einhverjir aðrir hafi hagað sér kjánalega. Það er frábært viðmið eða þannig. Staða þingsályktunartillagna á Alþingi er í algjöru uppnámi. Hvað með aðrar þingsályktunartillögur sem unnið er að? — Forseti, ég held að það sé einhver vitleysa í þessari klukku.

Hvað með aðrar þingsályktunartillögur sem unnið er að? Hver er staða þeirra? Á þeim bara að vera, eins og hæstv. forseti segir, almennt fylgt, ekki bindandi en almennt fylgt? Hvað þýðir það? Eigum við þá ekki bara, minni hlutinn hér á Alþingi, að leggja niður okkar störf og fara til baka til fyrri starfa ef það skiptir engu máli sem verið er að gera hérna? Ég bara spyr. Ég vil glöð fara í eitthvað annað ef þetta er bara eitthvert bull. Við skulum frekar gera það.

Ég vil fá úr þessu skorið og þetta má ekki vera einhver hentistefna til eða frá eftir því sem stjórnmálamönnum hentar hverju sinni.