144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

afgreiðsla atvinnuveganefndar á rammaáætlun.

[13:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Öll vinna meiri hlutans að þessari rammaáætlunartillögu er til skammar. Það er byrjað á því að senda málið í vitlausa þingnefnd. Það er beitt valdi í salnum til að senda málið sem flutt er af umhverfis- og auðlindaráðherra í málaflokki sem er á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra yfir í atvinnuveganefnd. Núna vitum við öll hvers vegna.

Síðan eru öll fagleg ferli og vinnubrögð þverbrotin, farið gegn anda og inntaki laganna um rammaáætlun. Það er meira að segja lagður núna til virkjunarkostur sem aldrei hefur hlotið flokkun hjá verkefnisstjórn og það er skýrt brot á lögunum um rammaáætlun. Það væri þá lágmark að meiri hlutinn horfðist í augu við það og flytti frumvarp með breytingartillögunni um að þrátt fyrir ákvæði þetta og þetta í lögum um rammaáætlun skuli virkja, skuli handaflinu beitt til að fara í virkjun við Hagavatn. Það er nefnilega það, herra forseti, sem hér er mætt, það er gamla handaflið í þágu stóriðjuhagsmunanna.