144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að eiga orðastað við hv. þm. Sjálfstæðisflokksins og varaforseta, Valgerði Gunnarsdóttur.

Utanríkisráðherra sendi bréf til Evrópusambandsins um stöðu aðildarumsóknar Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Við ræddum stöðu þingsins vegna þessa bréfs í gær og niðurstaðan er sú að þingsályktunin frá 2009 sé í fullu gildi. En óháð lagalegum og tæknilegum hliðum málsins langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að bréfaskriftir af þessu tagi séu í samræmi við góða stjórnarhætti. Finnst henni eðlilegt að þingmenn fái fréttir sem þessar í útvarpsfréttum? Hefði ekki verið eðlilegri farvegur fyrir málið að leita samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis?

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var ráðherraræði harðlega gagnrýnt. Óttast þingmaðurinn og varaforsetinn ekki að stjórnarhættir ríkisstjórnarinnar í þessu máli sem einkennast af leynd, óljósum skilaboðum, túlkun eftir hentugleika og skætingi, ýti undir ráðherraræði á kostnað sjálfstæðis þingsins?