144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir spurningarnar. Ég vil segja í framhaldi af þeim spurningum sem þingmaðurinn beindi til mín að ég tel að utanríkisráðherra hafi nákvæmlega sama rétt til þess að skrifa bréf til ESB og formenn stjórnarandstöðuflokkanna sem skrifuðu bréf í kjölfarið. Ég tel ekki óeðlilegt að utanríkisráðherra taki afstöðu í þessu máli. Á síðasta ári var lögð fram þingsályktunartillaga sem fór í málþóf hér í þinginu og kom ekki út úr utanríkismálanefnd. Það er algjörlega ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki í hyggju að halda áfram því starfi sem var unnið á síðasta kjörtímabili. Og ég ætla að fá að segja það sem kjósandi á síðasta kjörtímabili að ég harma það að ég var ekki spurð að því hvort við vildum ganga þá vegferð að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef alltaf verið á móti því að við gengjum í Evrópusambandið og mér þykir það afar leitt að hafa ekki fengið að segja til um það.

Ég ætla líka að svara spurningunni um ótta við stjórnarhætti. Ég hef ekki áhyggjur af því að hér séu óeðlilegir stjórnarhættir frekar en á fyrri kjörtímabilum. Sú ríkisstjórn sem er við völd hverju sinni hefur umboð frá kjósendum til þess að stjórna með þingstyrk sínum og ég býst við að það sé gert núna alveg nákvæmlega eins og á síðasta kjörtímabili.