144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að eiga orðastað við hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og þakka henni fyrir að þekkjast boðið.

Utanríkisráðherra sendi nýlega bréf til ESB þar sem hann lýsti því sem hann hefur í fjölmiðlum lýst mjög skýrt sem slitum á viðræðum við Evrópusambandið, þ.e. að núllstilla ferlið, eins og hann orðaði það, að klára þetta þannig að það lendi á núllpunkti.

Nú hefur þetta verið í mikilli umræðu, réttilega. Þingsályktunartillaga var lögð fram fyrir um ári sem fór inn í þingið og voru eðlilega miklar umræður um hana, við erum að tala um Evrópusambandið sem er gríðarlega stórt og umfangsmikið mál. Það fór til hv. utanríkismálanefndar til umræðu og kom aldrei þaðan þrátt fyrir að hv. þm. Birgir Ármannsson sé þar formaður nefndarinnar og úr Sjálfstæðisflokknum.

Því vekja vinnubrögð hæstv. utanríkisráðherra nú víðfræga furðu. Burtséð frá lagaspurningum sem ekki eru enn þá útkljáðar geri ég ráð fyrir því að hv. þingmaður, sem og vonandi við öll hér inni, geri kröfu um virðingu ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi og geri kröfu um virðingu fyrir þingræðinu. Því langar mig að spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um vinnubrögð utanríkisráðherra í þessu máli og ummæli hans og ummæli hæstv. forsætisráðherra og kröfuna um virðingu ríkisstjórnar fyrir Alþingi Íslendinga af hálfu hv. þingmanns.