144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þessar spurningar. Ég held að ég hafi náð þeim flestum niður. Hún spurði hvort ég teldi að bréfið eyddi óvissu og skýrði stöðuna eða hvort það gæfi til kynna að Ísland væri enn þá umsóknarríki. Ég tel að meginskilaboð bréfsins hafi komist á hreint: Ríkisstjórnin hyggst ekki endurvekja aðildarferlið, skuldbindingar fyrri ríkisstjórnar í aðildarferlinu eru ekki lengur gildar í ljósi nýrrar stefnu og Ísland telst ekki lengur umsóknarríki. Í bréfinu er óskað eftir því að ESB geri ráðstafanir sem taki mið af því og þá í framkvæmd þess að styrkja EES-samninginn og eiga nánara samstarf á grunni hans í stað þess að ganga alla leið.

Þetta var mín túlkun þegar ég las bréfið. Hv. þingmaður spyr einnig hvort utanríkisráðherra hafi verið stætt á að senda bréfið en eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom inn á áðan var þetta ákvörðun ríkisstjórnar Íslands. Þetta var borið undir hana áður en ráðherrann sendi bréfið þannig að ég tel að heil ríkisstjórn hafi ekki ákveðið eitthvað sem einum ráðherra hafi ekki verið stætt á að standa að baki.

Hv. þingmaður spurði að auki hvort við höfum skipt um skoðun. Ég tel að stefna ríkisstjórnarinnar sé skýr og í umboði kjósenda munum við fylgja því sem stendur í stjórnarsáttmálanum.