144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Á þingfundi í gær sagði fjármálaráðherra þau fleygu orð að meiri hlutinn réði. Á þingfundi í dag kemur utanríkisráðherra með sama meirihlutahroka og yfirlæti gagnvart þinginu. Ég held að við þurfum ekki sérstaka skýrslu frá forsætisráðherra hvað þetta varðar. Það hefur komið ítrekað fram hvaða augum hann lítur þingið þannig að hrokinn og lítilsvirðingin sem við sjáum hér ítrekað er í raun og veru að draga sig upp sem mjög skýr mynd af ríkisstjórninni. Sennilega er það rétt sem kemur fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur að hér er um að ræða varnarviðbrögð ríkisstjórnar sem er á flótta. Hún er á flótta undan Alþingi og hún er á flótta undan þjóðinni. En að lokum vil ég segja: Ráðherra gerir ekkert annað en að framkvæma vilja Alþingis og Alþingi tjáir sig með lögum og þingsályktunartillögum. Þannig er það, virðulegur forseti.