144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. Össur Skarphéðinsson um að ef hér skapast þingmeirihluti fyrir því að hefja að nýju aðildarviðræður við Evrópusambandið og ef í landið kemur ríkisstjórn sem hefur áhuga á því að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið mun hún finna einhverjar leiðir til þess. Ég held að það liggi alltaf í eðli máls að ef þau pólitísku stórtíðindi verða að hér verður allt í einu meiri hluti fyrir því að ganga í Evrópusambandið eða hefja aðlögunargönguna að nýju mun slíkur meiri hluti og slík ríkisstjórn finna einhverjar leiðir til þess. Ég held hins vegar að það verði svolítið erfitt, það verði svolítið átak, vegna þess að auðvitað hefur margt breyst frá sumrinu 2009 og menn munu raunhæft séð ekki geta haldið áfram öðruvísi (Forseti hringir.) en að hugsa málið frá grunni að nýju.