144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni skelegga ræðu. Ég er honum algjörlega sammála um að það lítur ákaflega álappalega út þegar utanríkismál eru komin í þá stöðu af hálfu Íslands að hæstv. utanríkisráðherra stendur í opinberu stappi í fjölmiðlum við blaðafulltrúa úti í löndum.

Ég er sömuleiðis algjörlega sammála honum um að það ber ekki að líta á tillögur um svona stóra málaflokka sömu augum og hverja aðra tillögu. Þetta er ein af stærstu ákvörðunum sem teknar hafa verið í lýðveldissögu Íslands og þessi ákvörðun og framfylgd hennar ávann síðan Íslandi ákveðna stöðu. Sú staða felur það í sér að ef ríkisstjórnin sem nú situr eða næsta ríkisstjórn ákveður að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið þá getur hún það og haldið áfram viðræðum, lokið samningi sem fyrir mörgum er ákveðið tæki til að skapa hér efnahagslegan stöðugleika.

Með því að falla frá því að líta svo á að Ísland sé umsóknarríki og sér í lagi að slíta ferlinu, eins og mátti telja að sumir ráðherrar teldu í upphafi síðustu viku, þá erum við að afsala okkur þessari stöðu. Í því felst mikill skaði fyrir Ísland. Það er þess vegna sem það er svo mikilvægt að þessi flótti hefur verið rekinn með þeim hætti að búið er að sigla hæstv. utanríkisráðherra til hafnar og hann er orðinn sammála okkur um að í þessu felist engin stefnubreyting. Það er mjög mikilvægt. Það var skilningur hv. þingmanns og ég er sammála þeim skilningi.

Síðan hef ég ýmislegt að segja, sem ég mun koma síðar að í ræðum mínum í dag, um þingræðið, en ég vil bara árétta viðhorf mitt til þingræðisins og spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar að einmitt sú breytingahrina gagnvart viðhorfum til lýðræðis sem hófst 2009 hafi meðal annars breytt kringumstæðum og ýtt undir að (Forseti hringir.) stórar ákvarðanir eins og þessi séu að minnsta kosti teknar af fulltrúum þjóðarinnar ef ekki henni sjálfri.