144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon orðar það svo að dagar hæstv. utanríkisráðherra séu dimmir. Mætti ekki segja að síðustu fjórir dagar hafi verið myrkvir sem hel? Ég held það. Hv. þingmaður gerði einmitt að umræðuefni í upphafi ræðu sinnar hvernig þetta lítur út skoðað utan frá með augum t.d. þeirra sem fylgjast með Íslandi. Ég held að sé óhætt að segja að aldrei hefur með losaralegri hætti verið haldið á utanríkismálum Íslands í gervallri lýðveldissögunni. Það hefur aldrei gerst áður að íslenskur ráðherra hafi farið með þessum hætti með skilaboð til erlendra ráðamanna, komið til baka og ekki vitað sjálfur hvers konar boð hann var að bera. Það hefur heldur aldrei gerst áður að ágreiningur rísi eins og var fyrstu dagana millum hæstv. ráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, raunar ekki heldur eins og við sáum það gerast á milli formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgis Ármannssonar, og formanns í eigin flokki, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.

Svo veltir maður því fyrir sér út á hvað þetta leikrit gengur allt. Hv. þingmaður rifjaði upp sem þarft var að gera fyrir Birgi Ármannssyni, hv. formanni utanríkismálanefndar, að flokkur hans hefði lofað þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er rétt að rifja upp fyrir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem kann að hafa verið önnum kafinn þegar sýnt var í sjónvarpsþætti viðtal við hæstv. utanríkisráðherra sem upplýsti það og tvístaðfesti að samið hefði verið um það millum forustu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að aldrei yrði nein þjóðaratkvæðagreiðsla. Aldrei nein þjóðaratkvæðagreiðsla. Aðspurður af spyrlinum hvort það þýddi að sjálfstæðismenn hefðu, reyndar nokkrum dögum eftir þau margítrekuðu loforð sín, bókstaflega selt Evrópusinnaða sjálfstæðismenn á silfurfati á fyrsta degi, svaraði hann sem svo að ekki er hægt að túlka öðruvísi en sem já. Hvað finnst hv. þingmanni (Forseti hringir.) um það?