144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst auðvitað dapurlegt eins og hv. þingmanni að horfa upp á utanríkisstefnu landsins birtast okkur sjálfum hér heima og umheiminum með þessum hætti að það skuli nánast þurfa að ráða dulspeking eða textarýni til að reyna að (ÖS: Eða Magga bróður.) ráða í það hvað menn séu að reyna að segja. Þá eru bara tvær tilgátur mögulegar í þeim efnum, annaðhvort eru menn svona óskaplega lélegir textamenn að þeim tekst engan veginn að búa í orð hugsun sinni og vilja eða að þeir eru vísvitandi í einhverjum tilgangi að hafa þetta svona þokukennt þannig að hægt sé að túlka það eftir „behag“, að einhverju leyti sé ein túlkunin ætluð til heimabrúks en önnur til annarra nota. Eitt gildi í reynd, að hin lagalega lögformlega staða málsins sé að Ísland sé áfram umsóknarríki af því umsóknin hefur ekki verið afturkölluð og viðræðunum hefur ekki verið slitið, en til heimabrúks sé hægt að segja hið gagnstæða.

Varðandi samninga stjórnarflokkanna um þessi efni og þjóðaratkvæðagreiðslur er ég alls ókunnugur í þeim efnum. Ég held að þetta mál sé þangað komið að það fari ekki frá okkur, við þurfum að halda áfram á því. Það hvernig tengslum Íslands við Evrópusambandið verður háttað til næstu ára og lengri framtíðar litið er stórmál, stórt utanríkispólitískt mál. Það verður á dagskrá í kosningum, annaðhvort í alþingiskosningum eða með því að leitað verði til þjóðarinnar sérstaklega um það hvert hún vill fara í þessum efnum. Það eru bara þeir kostir í boði.

Verði ekki að minnsta kosti einhvers konar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu um það hvert menn vilja stefna þá stefnir þetta í hefðbundinn farveg og kannski óvenjuharðskeyttan. Þá takast fylkingarnar á í gegnum næstu alþingiskosningar. Það var aftengt og (Forseti hringir.) það finnst mér lýðræðislega athyglisverðast, það var aftengt með (Forseti hringir.) yfirlýsingum fyrir (Forseti hringir.) síðustu kosningar um að þjóðin (Forseti hringir.)