144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég skil þetta auðvitað ekki frekar en nokkur annar en ég kýs að túlka það á þann veg að við séum umsóknarríki. Við höfum ekki dregið umsóknina til baka, hún liggur bara þarna eða hefur verið sett á ís og ef við viljum taka upp viðræðurnar síðar þá getum við gert það. Ég veit ekki hvort stjórnvöld átta sig á af hverju viðbrögðin eru svona hörð en ég upplifi þetta sem skemmdarstarfsemi. Það hefur enginn kallað á aðgerðir af hálfu Íslands og ég ætla að leggja fram skriflega fyrirspurn um að kallað verði eftir gögnum um það því mér finnst þetta vera mjög mikilvægt. Ég held að það sé enginn að kalla eftir því hjá ESB. Ég upplifi þetta svolítið þannig að menn séu að reyna að skemma fyrir þannig að ef ný ríkisstjórn — og hér verður væntanlega ný ríkisstjórn eftir tvö ár — vill hefja aðildarviðræður að nýju þurfi að fara í gegnum öll 28 þjóðríkin og senda inn nýja umsókn. Það getur verið heljarinnar mál. Það skiptir máli hvort við erum umsóknarríki, sem er ekki að gera neitt eins og sakir standa og það er allt í lagi með það, allir sáttir með það, eða hvort við slítum viðræðunum og þurfum að byrja á upphafsreit að nýju. Þetta er bara skemmdarstarfsemi og þjónar ekki hagsmunum Íslands, það er ekki hægt að sjá það. Þetta er gert bara til að róa einhvern lítinn frekan sérhagsmunahóp heima á Íslandi sem getur ekki sofið á nóttunni af því að ekki er búið að slíta viðræðunum. Svona upplifi ég þetta.

Mér finnst þetta orðið svo vandræðalegt og klaufalegt að það er ekki boðlegt. Hæstv. utanríkisráðherra verður að taka sig á.