144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu hv. þingmanns fór hann yfir hvernig ekki sé hægt að þræta fyrir það að formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar. Ég er fullkomlega sama sinnis. Það er svo sem ekki nýtt af nálinni að frambjóðendur í kosningum svíki loforð, hvað þá í tilviki þessara tilteknu hv. stjórnarflokka. Það sem er hins vegar nýtt er að menn sniðgangi Alþingi og réttlæti það síðan með því sem ég vil meina að sé vantrauststillaga á Alþingi af hálfu hæstv. utanríkisráðherra. Nú má vera ljóst af því að ég og hv. þingmaður erum í flokkum sem ekki tilheyra ríkisstjórn að þetta er ekki ríkisstjórn sem er okkur að skapi og engin ástæða til að búast við því að hún sé okkur að skapi með hliðsjón af því.

Ég er svolítið farinn að velta fyrir mér hvort við eigum að hafa trú á Alþingi, þessari stofnun hér. Það veldur mér verulegum áhyggjum. Þess vegna velti ég fyrir mér, er kannski komið nóg af því að tala um Evrópusambandið? Eigum við ekki að fara að tala um lýðræðið í grundvallaratriðum? Þá meina ég sérstaklega málskotsrétt þjóðarinnar sem er hugsaður til að halda þjóðaratkvæðagreiðslur en líka málskotsrétt minni hluta Alþingis sem er hugsaður til að bæta vinnubrögðin á Alþingi. Síðast en ekki síst er það auðvitað að aðskilja ríkisstjórn frá Alþingi þannig að þetta séu í reynd tvær stofnanir. Er það ekki þangað sem við þurfum að færa fókusinn í þessari umræðu?