144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enginn þeirra ráðherra sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands hefur verið ráðherra áður. Um það má í stuttu máli segja að þar drýpur reynsluleysið af hverju strái. Það einkennir allar stjórnarathafnir þessarar ríkisstjórnar og þessa þó fremur öðrum vegna þess að samráð hefði einmitt verið stjórninni sjálfri fyrir bestu. (Gripið fram í.) Engan greinir á um það að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er meiri háttar utanríkismál. Enginn þarf að þræta um það — ráðherrann getur kallað fram í eins og hann langar til — allir Íslendingar vita sem er að aðild að Evrópusambandinu og spurningin um það er meiri háttar utanríkismál og auðvitað hefði verið eðlilegt að hafa samráð við utanríkismálanefnd þar um.

Það getur vel verið að hæstv. ráðherra geti fundið einhver dæmi þess að um einhver mál hafi ekki verið haft samráð við utanríkismálanefnd en það gerir þetta bara ekkert betra, bara ekki hótinu betra. Það er einfaldlega dómgreindarleysi að bera ekki undir utanríkismálanefnd jafn augljósa meiri háttar ákvörðun í stórmáli og hitt er auðvitað bara meðvituð sniðganga við Alþingi að ætla að reyna að gera þetta með bréfi sem hann hefur ekki getað gert með tilstyrk Alþingis, kannski vegna einhverrar tregðu í samstarfsflokknum en engu að síður augljós sniðganga við þingið. Maður hlýtur einfaldlega að draga þá sömu ályktun að hún leiði líka af reynsluleysi því að viðbrögðin sýna að það er langt í frá að vera farsælt það sem ráðherrann gerir.