144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki alveg jafn heimspekileg og hv. þingmaður að gleðjast ekki yfir því ef Sjálfstæðisflokkurinn mundi klofna. Ég held að ég yrði bara nokkuð kát með það satt að segja og ég held að ég fái bara að viðurkenna það.

Það sem er að gerast í raun og veru, það sem liggur í loftinu er að núna, við hálfleik í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, eru að verða þáttaskil. Við erum að fara inn í nýjan kafla, ekki bara í skilningi tímabilsins sem slíks heldur vegna þess að núna liggur fyrir að vandi ríkisstjórnarinnar er ekki bara sá hvernig hún stillir sér upp með þeim ríku og þeim sem eru ofan á í samfélaginu, sem er óþolandi með öllu vegna þess að hún hefur ekki umboð til þess, hún er kosin til að klára eitt tiltekið verkefni sem eru skuldamálin, heldur er núna að verða lýðum ljóst að yfirlæti og hroki og óvandvirkni, klaufagangur sem gegnsýrir alla hennar embættisfærslu, gengur ekki til lengdar. Það getur enginn setið lengi í Stjórnarráði Íslands sem betur fer, sem vandar sig ekki og sýnir smáauðmýkt, a.m.k. svona inn á milli. Það er þó a.m.k. þannig að við hv. þingmaður eru sammála um að byrjað er að fjara undan ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og hún mun gefast upp áður en kjörtímabilið er á enda.