144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla í sögu lýðveldisins Íslands var eftir efnahagshrunið 2008. Fimm sem ég veit um hafa verið haldnar áður, allar fyrir stofnun lýðveldisins. Við erum ekki til fyrirmyndar þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum hérlendis og þá sjaldan sem þær hafa verið haldnar hefur það verið að frumkvæði eins tiltekins manns sem, meðan ég man, virðist aldrei geta sagt okkur fyrir fram hvernig hann taki nákvæmlega slíkar ákvarðanir. Það eru einhvern veginn alltaf misjafnar forsendur fyrir því hvers vegna hann vísar hlutunum til þjóðarinnar.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því að við töpum einhverjum málskotsrétti í Evrópusambandinu sem við höfum varla nú þegar. Það er þess vegna sem ég ítreka alltaf að við þurfum tvenns konar málskotsrétt, annars vegar málskotsrétt minni hluta þingsins sem snýst reyndar ekki um beint lýðræði heldur um að bæta vinnubrögðin hér á bæ. Hins vegar er það málskotsréttur þjóðarinnar sem er sá að um, segjum 10% þjóðarinnar geti knúið fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þær ákvarðanir sem eru teknar hér.

Fyrir um það bil ári komu fram 22% kosningabærra manna og kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB-málsins sem þá var hér til umræðu. 53.555 undirskriftir, 22%. Það sem við þurfum að spyrja hér er: Ef við ætlum ekki að láta þessa spurningu í hendur þjóðarinnar, þá hvenær? Þurfa 51% þjóðarinnar að heimta þjóðaratkvæðagreiðslu til að við höldum þjóðaratkvæðagreiðslu?

Svo er hitt, ef samningurinn er svona ofboðslega bölvanlegur og pakkinn svona skelfilegur og við töpum sjávarútveginum og landbúnaðinum greiðir enginn heilvita maður á Íslandi atkvæði með honum. Meiri hluti þjóðarinnar er á móti inngöngu á þessu stigi og hefur verið mjög lengi en er hins vegar hlynntur því að við höldum áfram samningaviðræðum og, já, kíkjum í þennan blessaða pakka, sem ég hef ekki enn þá fengið svör um hvers vegna eigi að vera svona erfitt. Mér finnst lýðræðislegt að greiða atkvæði á þessu stigi og vona að það svari spurningu hv. þingmanns.