144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert að gera nema fagna því og vona að hæstv. meðlimir ríkisstjórnarinnar taki undir það og sín eigin orð á seinasta kjörtímabili, svo það sé nú sagt. En hv. þm. Össur Skarphéðinsson bendir einmitt á það sem hefur gert mig ringlaðan í allri þessari umræðu frá upphafi. Ég hef nýlega dirfst að spyrja, svona án þess að líða eins og kjána: Hvaða aðlögun? Hvaða aðlögun eru menn að tala um? Hvar er þessi löggjöf sem við höfum þurft að taka upp vegna ESB-umsóknarinnar? Ég veit um helling sem við þurfum að taka upp vegna EES, við afgreiðum þær, það kæmi mér ekki á óvart, í tonnatali. Við þurfum að taka upp þvílíkt magn af EES-reglugerðum og höfum afskaplega lítið um það að segja, á afskaplega takmörkuðum tímapunkti.

Hv. þingmaður nefnir IPA-styrki sem fólk reyndar grenjaði yfir því að missa frekar en hitt. En ef það er aðlögun, gott og vel, þá er hægt að taka þá styrki til baka. En ég hef ekki séð nein frumvörp hér þess efnis að taka til baka eitthvert sjálfstæði sem við eigum að hafa tapað vegna Evrópusambandsins í kjölfar umsóknar. Ég bara skil ekki enn þá hvað menn eru að tala um. Jú, með IPA-styrkina, við (Gripið fram í.) misstum þá. Hv. þingmaður spyr til hvers þeir hafi verið. Mér heyrist hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafa svarað því í andsvari sínu sjálfur en ég býð bara upp á samtal að loknum þessum þingfundi ef menn vilja ræða það.

Enn þá sé ég ekkert mál hér á þingi (Gripið fram í.) þar sem við tökum til baka okkar tapaða sjálfstæði. Ég skil ekki hvað menn eru að tala um. Við fáum ekki peninga lengur til þess að grufla í einhverri pappírsvinnu, ónei, er það hryllingurinn sem við þurfum að losna við? IPA-styrkirnir? (Gripið fram í: Þeir voru ekki …)(Forseti hringir.)

(Forseti (ÓP): Ræðumaður hefur orðið.)