144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað í mína aðra ræðu vegna þess að ég náði ekki að fara yfir allt sem ég hefði viljað sagt hafa í þeirri fyrri. Þar sem ég lauk máli mínu var ég að velta því upp hvers vegna í ósköpunum menn treystu sér ekki til að standa við þau loforð sem gefin voru af hálfu beggja stjórnarflokkanna hvað það varðar að leyfa þjóðinni að ráða og greiða um það atkvæði hvort haldið skuli áfram eða hætt við viðræðurnar. Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er sú að ég er þeirrar gerðar að mér þykir eðlilegt að verða við því þegar rúmlega 55 þús. manns hafa lagt það á sig að skrifa undir beiðni um að fá að koma að svona ákvörðun, ekki síst í ljósi þess að sömu stjórnmálaflokkarnir lofuðu því beinlínis í aðdraganda kosninga. Þá eiga menn einfaldlega að staldra við og hlusta.

Þessi ríkisstjórn er búin að tala sig út í horn í þessu máli, er búin að forherðast í afstöðu sinni í einhverju uppgjöri við fráfarandi ríkisstjórn og hefur algjörlega gleymt hlutverki sínu sem er að reyna að horfa fram á veginn og fara eitthvað með okkur, þessa þjóð. Heiftin er svo mikil, andúðin gagnvart fyrri ríkisstjórn er svo mikil að menn komast ekki úr sporunum, menn komast ekki einu sinni á þann stað að geta staðið við eigin loforð. Þar liggur vandinn. Þess vegna er, eins og hv. þm. Kristján L. Möller nefndi áðan, tillaga formanna stjórnarandstöðuflokkanna tilraun til að fá menn að borðinu til að ræða þennan valkost og koma sér úr því horni sem menn eru búnir að mála sig út í og ræða við okkur um aðra möguleika til að losa um í málinu og koma vilja þjóðarinnar að.

Mér finnst líka óþægilegt og vandræðalegt, af því að maður getur stundum verið dálítið meðvirkur, að fylgjast með því hvernig menn líka leggjast í vörn fyrir mál, eru úti á einhverjum akri, vita ekki í hvaða átt þeir snúa og í hvaða átt þeir eiga að fara til að komast að. Það er þetta með hvernig menn hafa haldið því fram að eitthvað hafi ekki verið sagt í aðdraganda kosninga, menn hafi aldrei lofað hinu eða þessu þegar staðreyndirnar blasa við í hverju viðtalinu, upptökunni og eftirskrifinu á fætur öðru sem dregið hefur verið hér fram. Bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins lofuðu þessu sannanlega í aðdraganda kosninga. Það mál er algerlega afgreitt, þeir gerðu það báðir þannig að þetta eru sannanlega svik á loforðum.

Í öðru lagi verð ég að rifja upp vegna þess að menn hafa farið í ævintýralegan leiðangur í að reyna að halda því fram að Alþingi þurfi ekki að koma að þessu máli, og ég hef aldrei nokkurn tíma orðið vitni að öðrum eins viðsnúningi í skoðunum eins og hjá þessari ríkisstjórn, í grundvallarafstöðu til stórra mála, að það segir beinlínis í greinargerð með þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins sem flutt var af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni sem er líka starfandi aðstoðarmaður forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Fyrir Alþingi hefur verið lögð þingsályktunartillaga um að draga umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til baka. Alþingi eitt hefur vald til að draga umsóknina til baka … “

Aðstoðarmaður forsætisráðherra segir þetta í greinargerð með tillögu sem hann flutti um slit á viðræðum á síðasta kjörtímabili þannig að enn skrælist utan af röksemdafærslu ríkisstjórnarinnar á þessum hliðum málsins. Hún er ekki einu sinni sammála sjálfri sér í því með hvaða hætti eigi að fara með þetta mál vegna þess að menn eru búnir að mála sig út í horn, eru komnir í vandræði og grípa í allt, sama hvað það er og sama þó að þeir séu í mótsögn við sjálfa sig.