144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka allra náðarsamlegast fyrir að fá að tala hér á þessu þingi. Ég skil það vel eftir þá verkun sem hæstv. utanríkisráðherra hefur fengið í þingsölum síðustu daga að hann sé kannski með það sem síðasta útspil sitt að reyna að efna í einhvern leðjuslag við þingið, en hæstv. ráðherrar verða alltaf að gæta að virðingu sinni og það sem er hverjum (Gripið fram í.) manni dýrmætast er auðvitað sjálfsvirðingin. Hins vegar finnst mér að hæstv. ráðherra hafi sýnt aðdáunarvert úthald að sitja undir þessari umræðu, en hún hefur verið með þeim hætti að ég skil líka ákaflega vel að í síðustu ræðu sinni skuli hann einkum hugsa upphátt um þann varning sem hann nefndi, taubleiur.

Herra forseti. Það er bara tvennt, herra forseti, sem ég vildi svara hérna. Hæstv. ráðherra gerði að umræðuefni þá staðreynd, réttilega, að í ráðherratíð minni náðum við því ekki að fá hingað skrifstofu Norðurskautsráðsins. Á sínum tíma var það nokkuð erfitt, en við fórum eigi að síður í þann leiðangur. Við vorum hvattir af stórveldi sem á sæti í ráðinu til þess og höfðum stuðning þess. Það er rétt að segja þá sögu eins og hún var, það urðu atburðir á alþjóðavettvangi sem urðu til þess að stórveldið ákvað á síðustu stundu að setja stuðning sinn annað. Það tókst þó eigi að síður að verjast áformum um að flytja hugsanlega hluta af þeirri starfsemi sem ráðið hafði hér á landi til útlanda. Má kannski rifja upp að í kjölfarið fengu Íslendingar prófessorsstöðu sem tengdist þessu máli með vissum hætti eins og ég hef áður greint frá.

Hitt vil ég svo segja að það kemur mér á óvart þegar hæstv. utanríkisráðherra segir að síðasta ríkisstjórn hafi ekki lokið fríverslunarsamningi við Kína. Nú er ég farinn að hníga að aldri og hugsanlega er minni mitt farið að reskjast. Getur verið að það sé misminni hjá mér að ég hafi verið staddur í Kína í apríl 2013 og skrifað sjálfur undir samninginn?