144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skildi ekki alveg síðustu ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar enda hygg ég að þeim hafi verið beint annað. En (Gripið fram í.) ég held hins vegar að við hv. þingmaður getum verið sammála um að í undirbúningi fjárlaga og fjárlagaafgreiðslu hér á þingi þyrftum við sem erum sömu skoðunar í þessum efnum að beita okkur meira.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt fyrir okkur að huga að auknum mannafla sem vinnur að þessum EES-málum, bæði í Brussel og líka í ráðuneytunum heima. Ég held að það sé óhjákvæmilegt. Mér er ekkert endilega mjög ljúft að segja það sem talsmaður sparnaðar og aðhalds í hinum opinbera rekstri en ég held að það geti reynst okkur dýrkeyptara að láta það ógert. Ég held að við getum verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að mikilvægt sé að við í utanríkismálanefnd og aðrir sem áhuga hafa á þessum málum beitum okkur í því sambandi þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga hér í þinginu og eins og við getum á fyrri stigum líka. Þar hygg ég að ekki skorti á vilja hjá hæstv. utanríkisráðherra heldur enda, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, hefur það komið skýrt fram í ræðum af hans hálfu. (Gripið fram í.) — Það er auðvitað þingið sem á endanum tekur afstöðu til fjárlagatillagna og þar kann að vera að við getum beitt okkur meira en við höfum gert.

Við verðum hins vegar líka að hafa í huga að það að fjölga fólki og setja meiri peninga í verkefnið er ekki eina lausnin og ekki endilega fullnægjandi lausn. Ég held að við þyrftum líka, og það hugsanlega í samtali milli ríkisstjórnar og Alþingis, að skerpa áherslurnar hjá okkur þannig að við leggjum meiri áherslu og meiri vinnu í þau mál sem raunverulega skipta máli og verjum minni tíma, fyrirhöfn og eftir atvikum peningum í annað sem hefur minna vægi. (Forseti hringir.) Ég held að þetta sé líka spurning um forgangsröðun og hvernig við nálgumst verkefnið.