144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég sé að það er mikill missir að því fyrir okkur sem erum í utanríkismálanefnd að hafa hann ekki meðal vor.

Mig langar til að spyrja hann sérstaklega út í eitt tiltekið atriði sem varðar Evrópuráðið. Það kom fram að hann er mikill stuðningsmaður þess að Rússum sé þar áfram úthýst. Mig langar til að spyrja hann: Við hvaða aðstæður mundi hann telja að aftur væri rétt að hleypa þeim inn í Evrópuráðið?

Hv. þingmaður gerði stöðuna í Sýrlandi að umræðuefni og hún er náttúrlega mjög flókin. Þar sjáum við það til dæmis að Íranar hafa verið að kljást, að minnsta kosti á diplómatíska og pólitíska sviðinu, við Bandaríkjamenn og Bandaríkjamenn hafa verið að kljást við Assad forseta og hans lið. En svo sjáum við skyndilega að íranski byltingarvörðurinn er kominn í þúsundatali til Sýrlands til að berjast við ISIS. Assad forseti er að berjast við ISIS og Bandaríkjamenn eru að berjast við ISIS. Mætti þá draga þá ályktun að við værum komin í þá sérkennilegu stöðu að Íranar, Bandaríkjamenn og Assad forseti væru orðnir bandamenn? Af því að hv. þingmaður er vel að sér um þessi mál væri gaman að fá afstöðu hans til þess.

Spurningin er hins vegar þessi: Telur hv. þingmaður að það sé rétt af Vesturlöndum, einstökum löndum eða bandalögum þeirra, að ganga lengra en bara það að láta staðar numið við lofthernað sem hv. þingmaður sagði að skilaði ekki árangri nema á ákaflega löngum tíma?