144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn á undan mér þakka utanríkisráðherra fyrir þá mikla skýrslu sem liggur hér fyrir framan okkur. Þegar ég hef tekið til máls um sams konar skýrslu á fyrri þingum, sem ég held að ég hafi alltaf gert, hef ég lagt sérstaka áherslu á að nefna borgaraþjónustuna sem er okkur mjög mikilsverð og mér þótti hún stundum gleymast í umræðunni um skýrslu um utanríkismál. Ég held að á undanförnum hafi verið mjög bætt úr því og mér finnst því vera gerð mjög vel skil í skýrslunni hversu áríðandi og umfangsmikið verk er unnið þar.

Ég ætla að nota mest af tíma mínum, og ætla kannski ekkert endilega að fylla upp í þær níu mínútur sem ég á hér eftir, til að tala um Evrópustefnuna. Ég held að það sé ekki nokkur vafi á því lengur að þessi ríkisstjórn ætlar ekki að halda áfram með aðildarviðræður og ég held nú að enginn hafi haldið að hún ætlaði að gera það fyrir viku síðan. En hins vegar kom upp þessi farsi um að viðræðunum hefði verið slitið. Ég ætla svo sem ekki að fara sérstaklega ofan í það heldur tala um EES-samninginn. Enginn vafi er á því og mér virtist ekki vera neinn vafi á því fyrir rúmu ári þegar utanríkisráðherra lagði fram Evrópustefnu sína að einn af grunnþáttunum í utanríkisstefnu okkar væri að viðhalda EES-samningnum. Þá var birt þessi stefna um að auka ætti vinnu við samninginn, við þyrftum að sjá til þess að löggjöf væri innleidd hér þegar hún hefði verið samþykkt í Evrópusambandinu og við ætluðum líka að koma meira að undirbúningi löggjafar á frumstigum í Brussel. Ekkert af þessu hefur verið gert, virðulegi forseti.

Það kom fram í umræðunum fyrr í dag að engum viðbótarpeningum hefur verið varið til þessara mála. Það kom líka fram í dag, sem ég hafði ekki áttað mig á fyrr, að það er komin einhver stýrinefnd yfir Evrópumálin. Það virðist vera eins og þau séu ekki lengur alveg heimilisföst í utanríkisráðuneytinu. Fyrrverandi ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu benti líka á það á fundi í Háskóla Íslands í gær, eða alla vega í fréttum, ég heyrði það í viðtali við hann sem var í fréttum, að Evrópumálin og vinna við EES-samninginn, sem er mikil vegna þess að hann er lifandi samningur, ætti hvergi heima í íslenska stjórnkerfinu. Það er náttúrlega mjög alvarlegt, virðulegi forseti.

Á þriðjudaginn sat ég fund Evrópsku sameiginlegu nefndarinnar sem kölluð er, sameiginlegu þingmannanefndarinnar, en í henni eiga sæti þingmenn frá EFTA-ríkjum þremur, Noregi, Liechtenstein og Íslandi. Svissarar sitja þar sem gestir og fylgjast með, síðan eru þingmenn frá Evrópuþinginu og fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar, þar er fulltrúi ráðherraráðsins og fulltrúi landsins sem fer með formennsku. Þarna er farið yfir sviðið og hvernig gengur að reka EES-samninginn. Upp úr öllum sem þarna töluðu hvort heldur þeir voru frá framkvæmdastjórninni eða frá ESA, sem við eigum aðild að og á að reka áfram þennan samning, komu áhyggjur af því hvað halinn lengist alltaf á þeim gerðum sem á að innleiða. Fulltrúi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins lýsti miklum áhyggjum af þessu. Forseti ESA, ég held að hún sé kölluð forseti, en það embætti er nú í höndum Norðmanna, lýsti miklum áhyggjum yfir seinagangi við að færa í lög þær gerðir sem eru teknar yfir og sagði að það mundi fjölga mjög málum sem ESA þyrfti að senda til dómstólsins vegna þess að Norðmenn og sérstaklega við skildist mér, stöndum okkur ekki nógu vel í að innleiða þær.

Nú var þetta einmitt eitt af því sem manni fannst eiga að vera nokkuð ljóst í þeirri Evrópustefnu sem utanríkisráðherra lagði fram í mars í fyrra, en það hefur sem sagt ekki gengið eftir.

Maður getur síðan tengt þetta við ræðu sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson hélt áðan þar sem hann lagði áherslu á að utanríkisráðuneytið og starfsmenn utanríkisþjónustunnar þyrftu að sinna betur og leggja meiri áherslu á en hingað til hefur verið gert samskipti við Bandaríkin, við Kanada og önnur ríki en eru í Evrópusambandinu. Mér fannst hann meira að segja kannski færa rök fyrir því að það gengi allt svo illa og væri allt á afturfótunum í Evrópu þannig að það væri spurning í hans huga hvort við legðum ekki of mikla áherslu á Evrópusamvinnu og of litla á samvinnu við önnur ríki. Mér finnst þetta umhugsunarvert og ég velti fyrir mér: Er þessi spurning líka í huga hæstv. utanríkisráðherrans? Sérstaklega vegna þess að hann hefur ekkert gert í því að efna það sem felst í stefnunni í skýrslunni sem var lögð fram fyrir ári um að standa betur að því að framfylgja EES-samningnum.

Við megum alls ekki halda það, virðulegi forseti, að það sé bara nokk í lagi fyrir samningsaðila okkar, Evrópusambandið, að við drögum lappirnar í að uppfylla það sem við eigum að gera samkvæmt samningnum. Það er alls ekki svo. Það skiptir miklu máli að halda samningnum við og á þessum fundi sem ég var á fóru menn ekkert í launkofa með það að þetta veldur þeim sem starfa fyrir Evrópusambandið áhyggjum og auðsjáanlega veldur þetta ESA, þ.e. Eftirlitsstofnun EFTA, miklum áhyggjum.

Virðulegi forseti. Þetta veldur mér líka áhyggjum og ég held að hæstv. utanríkisráðherrann verði að taka af öll tvímæli um þetta. Við vitum að hann vill ekki aðildarviðræður, það vitum við klárlega, en vill hann halda við EES-samningnum? Eða er hann á einhverri annarri leið?