144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

breytingar á lögum um Seðlabankann.

[15:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það berast fréttir af fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um breytingar á Seðlabankanum. Þær sæta býsna mikilli furðu ef rétt er að uppi séu hugmyndir um það hjá ríkisstjórninni að innleiða í landinu á nýjan leik þrjú embætti seðlabankastjóra hjá rétt liðlega 300 þús. manna þjóð. Einn af lærdómunum sem menn drógu hér eftir hrunið var að það hefði ekki reynst sérstaklega til farsældar fallið eða orðið til þess að auka stöðugleika í landinu í efnahagsmálum um áratugaskeið að hafa þrjá seðlabankastjóra. Ég spyr þess vegna hæstv. forsætisráðherra hvort hann styðji hugmyndir um að hafa í landinu þrjá seðlabankastjóra og hvort það sé ætlunin að taka með þeim hætti úrslitavöldin af sitjandi seðlabankastjóra með því að það sé hægt að taka ákvörðun af tveimur seðlabankastjórum gegn atkvæði hins þriðja, þ.e. að hinir nýju seðlabankastjórar sem við bætist geti myndað meiri hluta sem ráði í bankanum.

Staðreyndin er sú að áratugum saman var helmingaskiptafélag um stöðu seðlabankastjóra. Við höfum langa og bitra reynslu af pólitískum afskiptum af yfirstjórn Seðlabankans. Ég taldi okkur hafa lært það í efnahagshruninu að við þyrftum að leggja alla áherslu á að hafa faglega yfirstjórn í bankanum. Ég spyr líka hæstv. forsætisráðherra hvort við þurfum að hafa áhyggjur af því að það bætist við einn bankastjóri frá hvorum stjórnarflokkanna í framhaldi af slíkum breytingum.