144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[15:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það hefur aldrei þótt gott í rekstri fyrirtækja eða í markmiðssetningu einstaklinga, hvað þá ríkisstjórna, að miða sig við það sem einhver annar gerði verst áður. Mér finnst það vera viðvarandi orðræða hér á Alþingi og ákaflega furðuleg viðmið að tala alltaf um að einhver annar geri hlutina verr. Frekar ætti maður að einbeita sér að því hvernig einhver annar gerir hlutina frábærlega vel í staðinn fyrir að vera alltaf að tala um hvernig einhverjir aðrir klúðruðu málunum sem áður voru við stjórn.

Það sem mér finnst kannski alvarlegast við þetta mál allt saman er að eigandi Matorku sat beggja megin borðs við gerð þessa risasamnings, það er kjarni málsins og mjög alvarlegt. Þetta er svo mikið gamla Ísland að manni verður ómótt. Þetta hefur verið gagnrýnt harðlega af Landssambandi fiskeldisstöðva og þeir tala um að samningurinn feli í sér mismunun og röskun á samkeppnismarkaði.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra sem fer með þennan málaflokk hvort það sé í samræmi við stefnu og sýn Sjálfstæðisflokksins að mismuna á þeim grundvelli að aðili sem fær 426 milljónir í styrki í formi afslátta á sköttum sitji beggja megin borðs (Gripið fram í.) og mæti meira að segja fyrir atvinnuveganefnd án þess að skýra nefndinni frá því.