144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[15:59]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu, sem er mikilvæg, um fjárfestingarsamninga og jafnræði í uppbyggingu atvinnulífsins í landinu.

Fjárfestingarsamningar geta skipt sköpum í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Þeir hafa verið forsenda fjárfestinga, fjölbreyttari sköpunar og betur launaðra starfa og það sem er mikilvægast, undirstaða verðmætra útflutningsafurða sem standa undir velferð þjóðarinnar. Án frekari uppbyggingar verðmætadrifinnar atvinnustarfsemi sem byggir á auðlindum okkar til sjós og lands verður lítið til að bæta heilbrigðiskerfið, menntakerfið og velferðarkerfið. Ef við ætlum að verða samkeppnisfær við aðrar þjóðir um erlenda fjárfestingu í atvinnulífinu þarf annaðhvort fjárfestingarsamninga sem draga að fjárfestingu og skapa fjölbreytt og vel launuð störf eins og ég hef áður komið að eða almennt skattkerfi og umgjörð atvinnulífsins sem sogar að sér fjárfestingu til landsins, sem er að sjálfsögðu sýn okkar sjálfstæðismanna.

Þrír síðustu iðnaðarráðherrar hafa kallað eftir rammaumgjörð um lög um fjárfestingarsamninga og eru þau mál núna á lokastigi og til umræðu í atvinnuveganefnd. Gæta verður að jafnræði og við sáum eins og hér hefur komið fram á síðasta kjörtímabili að meðal annars var gerður fjárfestingarsamningur við fiskvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni og ekki er mér kunnugt um að önnur fiskvinnslufyrirtæki hafi fengið slíka samninga en það er auðvitað verkefni okkar að gæta að því að ekki verði misræmi í því.