144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

veiðireglur til verndar ísaldarurriða.

600. mál
[18:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að færa enn inn til Alþingis málefni ísaldarurriðans í Þingvallavatni. Það má eiginlega segja að hv. þingmaður beri hag þessa málefnis fyrir brjósti eins og ég ber hag landsbyggðarfólks fyrir brjósti, eins og kom fram í fyrirspurninni áðan. En hv. þingmaður hefur það hins vegar fram yfir mig með ísaldarurriðann, þó að ég hafi mikinn áhuga á honum, að hv. þingmaður er líka öflugur landsbyggðarmaður og krefst réttlætis eins og kom fram áðan í umræðu um augnlækna á Austurlandi.

En það sem ég tók eftir í svari hæstv. ráðherra er að nýtingaráætlun Veiðifélags Þingvallavatns hefur ekki verið sett og því spyr ég hæstv. ráðherra: Eru það ekki fyrst og fremst opinberir aðilar sem vernda Veiðifélag Þingvallavatns og hvers vegna gengur svo erfiðlega að setja nýtingaráætlun hvað það varðar? Eins og hér hefur komið fram hafa komið upp einhverjar reglur sem gera það að verkum að menn nota alls konar veiðarfæri sem geta skaðað fiskinn og ekkert vitað um afleiðingar(Forseti hringir.) í staðinn fyrir að veiða á flugu og sleppa í ákveðin svæði sem Þingvallanefnd og Orkuveita Reykjavíkur hafa sett upp. Hér er spurt um hvort sett (Forseti hringir.)