144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður að heyra að ekki eigi að reyna að gera lítið úr þeirri tillögu hv. þingmanna sem hér er rædd. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við gefum okkur góðan tíma til að ræða tillöguna og við eigum ekki að afgreiða hana á elleftu stundu áður en hér verður þinghlé. Og allar hugmyndir sem ég hef heyrt á göngum þingsins um að vera eigi takmarkaður ræðutími þegar við ræðum þessa tillögu hv. þingmanna, forustumanna stjórnarflokkanna, ég vona að virðulegur forseti taki ekki slíkt í mál. Ég held að það sé lykilatriði að við ræðum tillöguna vel og lengi og notum tækifærið og hrekjum þær bábiljur og þau rangindi sem hafa komið fram í þessu máli og ræðum ESB-málið af fullri alvöru. Ef hér eru einhverjar hugmyndir um að reyna að klára þetta í einni svipan, á nokkrum mínum, þá hvet ég virðulegan forseta til að blása á allt slíkt og taka alvöruumræðu um ESB-málið.