144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli á því máli sem var aðeins reifað fyrr í dag undir liðnum um fundarstjórn forseta og varðar brennivínsmálið svokallaða og það sem kom frá Læknafélaginu í morgun. Ég átti hér orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra í gær og hlýt að fara aðeins yfir hans svör eða ekki-svör öllu heldur. Ég ætla aðeins að drepa niður í svari hans við mig hér í gær. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það sem mér er helst í huga varðandi þetta mál er hvernig við getum dregið sem mest úr misnotkun á áfengi, ekki endilega bara neyslu heldur fyrst og fremst misnotkun.“

Hann hefur líka verið „mjög hugsi yfir þeirri einföldu staðreynd að stefna ÁTVR, ríkisfyrirtækis, hefur á allmörgum síðastliðnum árum verið sú að auka aðgengi fólks að þessari löglegu söluvöru“. Honum er líka hugleikin í því frumvarpi sem hér liggur fyrir sú grundvallarbreyting sem verið er að leggja til varðandi gjaldtöku í lýðheilsusjóðinn. Og svo sagði hann þegar ég spurði hann um afstöðu hans til frumvarpsins að hún kæmi fram þegar það kæmi til atkvæða.

Virðulegi forseti. Það kemur ekki skýrt fram í svörum heilbrigðisráðherra að með þessu frumvarpi er verið að auka til mikilla muna aðgengi að áfengi. Læknafélagið leggst gegn því ásamt svo fjöldamörgum öðrum sem komið hafa fyrir allsherjar- og menntamálanefnd. Það er þversagnakennt, eins og þar kemur fram, að ætla að samþykkja þetta frumvarp sem hefur neikvæð áhrif á uppvöxt barna og ungmenna. Mér finnst líka mjög sérstakt að ráðherra sem ætlar að hengja sig í að 5% eigi að renna í lýðheilsusjóð í þessu frumvarpi skuli ekki bara leggja það til sjálfstætt að auka framlag til lýðheilsumála í staðinn fyrir að reyna að klóra í bakkann því að hann var augljóslega í miklum vandræðum með að svara hreinskilið fyrir (Forseti hringir.) eigin afstöðu (Forseti hringir.) sem heilbrigðisráðherra gagnvart þessu máli.