144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:28]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Af þessu tilefni vill forseti taka fram að sú beiðni sem hv. þingmaður vísaði til kom fyrir fund forsætisnefndar. Forseti lét þar í ljósi ákveðnar efasemdir eftir að hafa kynnt sér það mál um að sú beiðni væri fyllilega samrýmanleg þeirri lagaumgjörð sem er um starfsemi Ríkisendurskoðunar. Engu að síður var það niðurstaða forseta og tillaga hans, sem síðan var samþykkt eftir að nokkrar umræður höfðu farið fram, að mál þetta mundi ganga til Ríkisendurskoðunar sem tæki þá afstöðu til málsins með hvaða hætti hún nálgaðist viðfangsefni sitt.

Forseti vill árétta að hann hefur ákveðnar efasemdir um að þetta sé fyllilega í samræmi við lagarammann um starfsemi Ríkisendurskoðunar. (ÖS: En hann fellir úrskurð.) En forseti vill hins vegar af því tilefni sem hv. þingmaður gaf hér með spurningu sinni segja að málið kemur auðvitað til umfjöllunar í utanríkismálanefnd þegar því hefur verið vísað þangað og þá fer auðvitað fram hin efnislega umræða um þá þætti sem hv. þingmaður hefur gert hér að umtalsefni. Málið er að mati forseta fyllilega þingtækt og þess vegna er engin ástæða til þess að bíða með þessa umræðu frekar. Málið var lagt fram í lok síðasta mánaðar og hefur því legið fyrir augum þingmanna alllengi, sem hafa haft mjög góða möguleika til þess að kynna sér það.