144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vekur athygli í frumvarpinu að verið er að taka stofnun sem sinnir tvíhliða þróunarsamvinnu og færa hana inn í ráðuneyti til að auka umfang þróunarsamvinnu Íslands, eða eigum við að segja að færa hana nær nýjum og breyttum áherslum, og þá með meiri áherslu á verndun umhverfisins, baráttu við áhrif loftslagsbreytinga, tryggingu friðar og öryggis, og svo auðvitað afnám fátæktar.

Þá veltir maður fyrir sér þegar tekið er fram — eða rétt er að taka fram, segir í greinargerð — að stofnunin hafi unnið sérstaklega gott starf og margsannað sig í óháðum úttektum. Ég þekki ekki jafn vel til þessara mála og skipulags þeirra hér og hv. þingmaður, en ég veit að það fer fram umtalsverð vinna á sviði loftslagsmála í ráðuneytinu. Ég velti fyrir mér hvort það kunni að vera að stofnun sem hefur byggt upp slíka sérhæfða þekkingu og fer inn í ráðuneyti þar sem áherslurnar hafa verið aðrar, hvort hin tvíhliða samvinna gæti ekki goldið fyrir það, samvinna sem er mjög mikilvæg, því að hún lýtur að því að koma fólki úr fátækt. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræddi einmitt fyrirmyndina frá Ítalíu þar sem starfið í ráðuneytinu er flutt yfir í stofnunina, ég spyr hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af þróun tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands ef þessi breyting verður gerð, samvinnu sem enn er full þörf á og mjög mikilvæg fyrir fátækustu borgara heimsins.