144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér nú ekki í það rannsóknarverkefni að rannsaka huga hæstv. ráðherra eða ástæðurnar sem fyrir því kunna að liggja hjá honum að velja þetta mál eða leggja það fram á þennan hátt. Hann þarf best að svara því.

Það sem mér finnst umhugsunarefni í þessu er auðvitað stofnanafyrirkomulagið. Mér finnst málið skringilega búið hvað varðar 8. gr., mjög svo. Ég hlýt að velta upp þeirri spurningu og þeim vangaveltum að ef menn eru að gera stofnanabreytingar, af hverju útfæra þeir þær þá ekki betur en að segja að einhver óháður aðili eigi að gera úttektir og segja svo að það lagaákvæði þarfnist ekki skýringa? Það þarfnast fullt af skýringum fyrir mér. Ef þessi óháði úttektaraðili er Ríkisendurskoðun þarf að fjalla nákvæmar um það. Það liggur líka fyrir, eins og ég hef rakið hér, að sérfræðingar DAC töldu eðlilegt að þingið kæmi að slíku eftirliti. Mér finnst skorta mikið á heildarmyndina í því efni. Er hugmyndin að ráðgjafarfyrirtæki geri þessar úttektir? Mér finnst það ekki fullnægjandi búnaður. Er hugmyndin að alþjóðlegir aðilar geri það? Mér finnst þetta allt þurfa að falla inn í þá hugsun að þróunarsamvinna er hluti af opinberri stefnu íslenskra stjórnvalda og sú opinbera stefna á að lúta eftirliti og eftirlitsvaldi Alþingis eins og öll önnur opinber stefna ríkisstjórnar. Þetta finnst mér vera stóri blindi bletturinn í þessu máli, aðkoma Alþingis að eftirlitinu hér, og kannski frekari og betri úttekt og útfærsla á því hvernig það eigi að virka.