144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók upp þennan ákveðna vinkil í ræðu minni, meðal annars vegna þess að mér gramdist það þegar hæstv. ráðherra, fannst mér, gekk mjög hart að öðrum hv. þingmanni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, hér áðan með því að væna hana um annarlegar hvatir. Sjálfur skýrsluhöfundurinn segir mönnum bókstaflega að lesa skýrsluna í gegnum Rauðakrossgleraugun sem hann hefur á eigin nefi.

Þá kem ég aftur að hinu fyrsta andsvari hv. þingmanns, sem mér fannst svo brilljant hér í dag og mikilvægt. Þá spurði hv. þingmaður hæstv. ráðherra um dæmin þegar hann sagði: Fyrir utan DAC-skýrsluna voru fá efnisleg rök með þessari leið nema það sem hv. þingmaður las hér upp úr greinargerðinni á bls. 8 þar sem talað er um tvíverknað, þar sem talað er um flækjustig og nauðsyn á hagræðingu. Hv. þingmaður bað um dæmi. Hann veit hvaða svar hann fékk. Engin dæmi um árekstra. Kannski einhverjir minni háttar, að því er ráðherrann hélt.

En hvað, undir málfræðilegu horni, köllum við það þegar hæstv. ráðherra notar orð eins og „tvíverknaður“, eins og „árekstrar“, í greinargerðinni en getur ekki fundið það? Ég skal segja hv. þingmanni hvað ég kalla það út frá mínu málfræðihorni. Ég kalla það dylgjur. Það sem hæstv. ráðherra var ranglega að saka þingmanninn um hér áðan, og hún svaraði vel fyrir sig, það iðkar hann sjálfur.