144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:38]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er þetta 1. umr. um málið og vonandi koma margar umsagnir um það þegar það fer í nefnd og verður rætt betur. En manni finnst eins og það liggi kannski beinast við að draga málið til baka og bíða eftir niðurstöðum, þessum úttektum, og skoða málið betur og sjá hvort þetta sé rétt skref, því að væntanlega verður ekki svo auðveldlega snúið til baka ef þetta skref verður stigið.

Mundi hv. þingmaður ekki telja að það væri kannski — ja, það er ekkert sem mælir gegn því og þó, það er tímaeyðsla ef málið fer í nefnd á milli umræðna og síðan eru það allar umsagnirnar. Mér finnst reyndar alltaf mjög gott þegar umsagnir koma, þá koma fram skoðanir og álit annarra en okkar þingmanna. En ég hef áhyggjur af því að ef menn fara einhvern veginn að troða málinu í gegn, taka þessa ákvörðun af ekki alveg nógu vel yfirlögðu ráði verði erfitt að snúa til baka. Það er betra að bíða bara, að undirbyggja málið og rökstyðja það, fá úttektir sem boðaðar hafa verið. Það breytir engu hvort það gerist eftir eitt, tvö eða þrjú ár. Við erum hvort eð er að horfa hér fram í tímann.

Af því að hv. þingmaður hefur verið ráðherra, þá kom fram einni ræðunni að það gæti verið að ráðuneytin væru einhvern veginn lokaðri og það væri aðeins erfiðara aðgengi að þeim en að stofnunum. Auðvitað veit ég ekki alveg hvernig þetta verður útfært, hvort það bara áfram á sama stað eða hvernig menn hugsa það. En hver er reynsla hv. þingmanns af því? Maður þarf að gera grein fyrir sér og eiga erindi ef maður ætlar að tala við einhvern í ráðuneytinu. Stofnanirnar eru (Forseti hringir.) nú alla vega opnari.