144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera hér að umtalsefni endurskoðun stjórnarskrár sem mikið var unnið við á síðasta kjörtímabili. Við munum þennan glæsilega feril allan, þjóðfundur, kosið til stjórnlagaþings, sem því miður var nú dæmt ógilt af tæknilegum ástæðum, að mig minnir af því að pappírinn var of þunnur, síðan áframhaldandi vinna við það eftir að Alþingi hafði kosið nýja stjórnlaganefnd. Síðan er í gangi núna endurskoðun stjórnarskrár á vegum þingflokka og fleiri og það er það sem ég vil gera að umræðuefni ásamt því að ræða um það sem að mínu mati er einn mesti löstur í starfsemi Alþingis, þ.e. hinn langi og mikli tími sem hægt er að nota til að ræða mál, og að ekki sé hægt eins og á öðrum þjóðþingum að tímasetja þá vinnu sem fer í ákveðin mál og búa þannig til starfsáætlun ef svo má að orði komast.

Þá kem ég að því sem ég vil gera að aðalumtalsefni, þ.e. að í stjórnarskrá verði sett það ákvæði, eins og Danir hafa, að þriðjungur þingmanna geti vísað máli sem hingað kemur inn og miklar deilur eru um til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er alveg sannfærður um það, virðulegi forseti, að væri þetta í stjórnarskrá væri þetta ekki oft notað en það mundi vanda mjög vinnubrögðin við samningu frumvarpa um umdeild mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu, ná verður samstöðu um málið til að leggja það fram vegna þess að annars er alltaf hægt að vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég tel þetta eitt brýnasta atriðið á vegum stjórnarskrárnefndar núna. Þess vegna fagna ég því mjög þegar forsætisráðherra lýsir því hér yfir að auðlindaákvæðið sé líka undir í þessari ferð, að setja eigi inn ákvæði um að auðlindir séu sameign þjóðarinnar. Ég tel mjög mikilvægt að þetta ásamt þeim valkosti þriðjungs þingmanna að vísa máli til þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) komist inn. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja þingmenn (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna alveg sérstaklega til að hugleiða þetta mál og taka það mál til umræðu í sínum þingflokkum (Forseti hringir.) þannig að menn nái því fram á þessu kjörtímabili.