144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég gerði þetta að umræðuefni í ræðu minni áðan en ég tek hins vegar undir það sem þær hv. starfssystur mínar í þinginu hafa sagt um þetta mál. Það hefur verið óskrifuð regla í þessum sal að menn vega ekki að fólki utan þings. Ástæðan er auðvitað einföld, viðkomandi getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Ég sé mig tilknúinn til að taka undir mótmæli við þessu. Ef ég væri hæstv. forseti og sæti í þeim volduga stól sem hér er að baki mér hefði ég tekið upp hamarinn, lamið í bjölluna og gert athugasemdir við orð hæstv. ráðherra. Menn gera ekki svona, þeir vega ekki að starfsheiðri fræðimanna, hvað þá af þeirri ástæðu einni að þeir séu í stjórnmálaflokki sem hæstv. ráðherra kann að líka illa við eða ekki vel. Það er algjörlega fáheyrt og ég vona að þetta mál verði tekið upp og að forsætisnefnd geri hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) kunnugt um að svona sé henni ekki að skapi.