144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

viðræður við Kína um mannréttindamál.

[11:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það er alveg ljóst að það eru ekki eingöngu ráðherrar sem taka þessi mál upp við Kínverja eða aðra sem við eigum í samstarfi við þegar kemur að mannréttindum, hvort sem það er í gegnum viðskiptasamninga eins og í þessu tilviki eða einhverja aðra samninga, af því að við vorum að ræða þróunarmál. Við erum að vinna með löndum þar sem er víða pottur brotinn þegar kemur að mannréttindum og við tökum þessi mál upp við þau.

Það er mjög ánægjulegt að hér komi fram að við, íslensk stjórnvöld, getum ekki fallist á mannréttindabrot, hvort sem það er hjá Kínverjum eða einhverjum öðrum. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að okkur ber að vekja athygli á því. Hvernig það er gert er hins vegar nokkuð sem við þurfum að sjálfsögðu að fara yfir og ræða, en við munum benda á hvers konar mannréttindabrot sem við teljum að okkar samstarfsaðilar fremji, við munum taka þau mál upp við þá þegar tækifæri gefst.

Ég held að við verðum að vera óhrædd, og við erum óhrædd við að vekja athygli á þessu. Það er alveg sama hver á í hlut. (Forseti hringir.) Það hefur alltaf komið í hlut Íslands, til dæmis á alþjóðavettvangi, að flytja tölur, til dæmis að tala innan (Forseti hringir.) Sameinuðu þjóðanna um alvarleg mannréttindabrot. Það eru önnur stærri ríki sem (Forseti hringir.) eiga hagsmuna að gæta sem við eigum kannski ekki.