144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Í fyrsta lagi man ég ekki eftir eða í það minnsta kannast þá ekki við að þessum ákvæðum hafi verið beitt sérstaklega sem hv. þingmaður spyr um varðandi það að frysta fjármuni. Það kann að vera án þess þó að ég muni það akkúrat núna.

Varðandi hina spurninguna, hvort þetta tengist á einhvern hátt því að borgaraleg loftför hafi verið nýtt, eins og hv. þingmaður réttilega benti á, í aðgerðir sem eru okkur ekki mjög hugnanlegar styrkir þetta í rauninni eingöngu það sem fyrir er. Það er sem sagt verið að nútímavæða þær tilskipanir og þau lög sem við notum í dag þannig að það er í raun ekki neitt nýtt.

Hins vegar er rétt að benda á að það voru skýrðar, ef ég man rétt á síðasta kjörtímabili, hv. þingmaður man það kannski betur en ég, í tíð síðustu ríkisstjórnar eða hvort það var í tíð hv. fyrrverandi þingmanns Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, heimildir til að fara inn í vélar og kanna hvað væri um borð. Ég hygg reyndar að sá hluti þessarar starfsemi heyri undir innanríkisráðuneytið en eftir að þetta mál kom hér upp á sínum tíma fóru stjórnvöld í að skýra verklagsreglur varðandi það að geta skoðað betur hvað er verið að flytja í vélum sem eru borgaralegs eðlis en eru klárlega í hlutverki einhvers annars.