144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:45]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér tókst í fyrri ræðu minni ekki að fara í gegnum allt frumvarpið innan þess tíma sem var úthlutað og ég kem því aftur upp í seinni ræðu til þess að klára það sem út af stóð, um III. kaflann, um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir, og kemur það ágætlega í kjölfarið á þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað.

Ég set líkt og hv. þm. Ögmundur Jónasson mjög stórt spurningarmerki við 3. gr., III. kafla, því að með henni er verið að rýmka heimildir utanríkisráðherra til þess að beita þvingunaraðgerðum. Í dag er ráðherra heimilt að beita slíkum aðgerðum sem ákvarðaðar eru af Sameinuðu þjóðunum, alþjóðastofnunum eða ríkjahópum. Þetta frumvarp veitir ráðherra hins vegar möguleika á því að taka undir og taka þátt í þvingunaraðgerðum einstakra ríkja að höfðu samráði við utanríkismálanefnd, án þess að slíkar aðgerðir hafi verið ákvarðaðar af alþjóðastofnunum. Hér er því verið að opna á það að utanríkisráðherra geti nánast upp á sitt einsdæmi, það er reyndar sagt í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis, ákveðið að Ísland skuli taka þátt í þvingunaraðgerðum gegn einstaka ríkjum án þess að fyrir því liggi neinar alþjóðlegar samþykktir. Ég set spurningarmerki við þetta og sérstaklega að það sé nóg að um sé að ræða samstarfsríki sem við ætlum að taka þátt í þvingunaraðgerðum með. Líkt og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði í ræðu sinni voru mín fyrstu hugrenningatengsl einmitt Íraksstríðið og listi hinna viljugu þjóða. Það er svo sem ágætt að heyra það frá hæstv. utanríkisráðherra að hér sé ekki verið að hugsa um eitthvert slíkt ákvæði, en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ákvæðið sé of opið. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„… þvingunaraðgerðir sem miða að því að viðhalda friði og öryggi og/eða tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi.“

Þetta er óskaplega opið fyrir túlkunum, hvað það er sem við getum kannski kallað viðeigandi þvingun hverju sinni og hvaða orðalag við notum um viðeigandi þvinganir hverju sinni. Ég vil þess vegna taka undir þau orð að þetta þurfi að skoða nánar í hv. utanríkismálanefnd. Og svo vil ég taka undir þau orð að ákvarðanir um að fara í einhvers konar þvingunaraðgerðir eiga auðvitað að koma fyrir þingið.

Af því að ég hef verið í máli mínu talsvert gagnrýnin á frumvarpið þá langar mig þó að segja að ég er ákaflega ánægð með b-lið 4. gr. þar sem sagt er að ráðherra sé heimilt að banna viðskipti með hrádemanta frá átakasvæðum og tól sem megi nota til pyndinga. Ég vona svo sannarlega að ráðherra muni beita þessu ákvæði við öll þau tækifæri sem hann mögulega getur, svo eitthvað jákvætt sé nú sagt.

Við hæstv. ráðherra áttum talsverða umræðu í andsvörum um IV. kafla, um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, og ég þarf ekki að koma að því aftur. En það sem ég vil segja um frumvarpið sem heild, líkt og fram hefur komið í máli mínum, þá vekur það upp ansi margar spurningar frá sjónarhorni friðarsinnans. Ég tel þess (Forseti hringir.) vegna mjög mikilvægt að utanríkismálanefnd leggist (Forseti hringir.) vel yfir orðalagið í frumvarpinu svo að ekkert hér sé opið til frjálsra túlkana.