144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:10]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Eins og hv. þingmenn vita er kveðið á um það í þingsköpum með hvaða hætti tilkynnt er um viðveru hæstv. ráðherra hér í óundirbúnum fyrirspurnum. Þegar forseta varð ljóst að formenn stjórnarflokkanna voru ekki tilkynntir inn til þátttöku á þessum þingfundi, í óundirbúnum fyrirspurnum, freistaði forseti þess að gera rek að því að annar hvor eða báðir hæstv. ráðherrar gætu verið viðstaddir. Fyrir liggur að hæstv. ráðherrar eiga þess ekki kost. Við þekkjum það að jafnvel þó að hæstv. ráðherrar vilji svo gjarnan vera viðstaddir þingfundi, eins og hv. þingmönnum ber skylda til, kunna þær aðstæður að koma upp að hæstv. ráðherrar, rétt eins og hv. þingmenn, eigi þess ekki kost eða hafi ekki möguleika á því að koma til þingfundar.