144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

verndun Torfajökulssvæðis og fleiri svæða.

[16:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Vitanlega er það svo að landsvæðin eru mismerkileg hvað þetta varðar. Verndargildi þeirra er mismunandi mikið og þar vegast síðan á sjónarmið sem snúa að orkunýtingu og síðan landvernd en ekki síður líka það sem alltaf er meiri og meiri knýjandi umræða um, þ.e. önnur nýting, t.d. umgangur og umferð ferðamanna, bæði innlendra og erlendra. Það þarf að líta til slíkra sjónarmiða líka.

Það sem ég vil ítreka er að afstaða mín í þessu máli og sem birtist í bréfinu er auðvitað leiðbeining hvað það varðar að ef verið er að sækjast eftir því að komast á heimsminjaskrá þá eru ákveðin sjónarmið sem þar liggja undir og þar af leiðandi þarf að hafa til hliðsjónar ýmislegt hvað varðar alla ferla, umsóknir og annað slíkt.

Það væri of langt gengið að alhæfa síðan út frá þessu bréfi um aðra þætti eða aðra hluti sem bréfið nær ekki til. Það þarf að ræða sérstök tilvik.