144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

samráð um frumvörp um húsnæðismál.

[16:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Bara til að skýra það út fyrir hæstv. ráðherra þá eru þessir svokölluðu leigusalar sem eru leigufélög í almannaþjónustu einmitt að hugsa um hagsmuni leigjenda þegar þeir gagnrýna frumvarpið.

En nú í raun að aðalspurningunni sem ég fékk ekki svar við hjá hæstv. ráðherra. Styður ríkisstjórnin áform ráðherra um að stórauka stuðning við leigjendur og leigufélög í almannaþjónustu til að tryggja húsnæðisöryggi og virkan leigumarkað? Eða er þetta einkamál hennar? Manni liggur við að hugsa það þegar maður sér með hvaða hætti ráðherra hefur ákveðið að koma fram við það starfsfólk sem vinnur að þessu máli. En aðalspurningin er og ég óska eftir svari frá hæstv. ráðherra: Er stuðningur við málið og hvenær megum við búast við því að það komi hingað inn í þingið því ef um stuðning er að ræða þá er ekkert mál að koma því hér inn.