144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

skilyrðing fjárveitingar til háskóla.

522. mál
[17:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil leggja áherslu á það við hæstv. ráðherra að þessar 30 milljónir komi inn í fjárlagafrumvarpið næst þannig að við séum ekki að brasa við þetta á hverju ári og eyða ómældum tíma í það. Það hefur verið útskýrt hérna ágætlega að Háskólinn á Akureyri hefur staðið sig afar vel í rekstri og væri gott ef allar ríkisstofnanir væru með jafn agaða fjármálastjórn.

Ég hef áhyggjur af einu og það kemur inn á það sem við vorum að tala um áðan, mér finnst gríðarlega mikilvægt að ítreka að ástæðan fyrir því að skiptingin á þessum 617 milljónum varð eins og hún varð er sú að Háskólinn á Akureyri áætlaði nemendafjölda fyrir árið 2014 mun minni en raunin varð. Það er mjög einkennilegt ef það verður ekki leiðrétt því að þá er þetta bara orðið eins og eitthvert lotterí. Eiga menn þá bara að fara að áætla eitthvað út í loftið?

Ég mun fylgjast vel með þessu máli og við í kjördæminu (Forseti hringir.) sérstaklega vegna þess að það verður óskiljanlegt ef þetta verður ekki leiðrétt út frá rauntölum.