144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

innritunargjöld öryrkja í háskólum.

547. mál
[17:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland gerðist aðili að árið 2007 og íslensk stjórnvöld vinna nú að fullgildingu á, segir að aðildarríkin skuli tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að hefja almennt nám á háskólastigi.

Nú er það svo að skólaganga fatlaðs fólks er almennt styttri en skólaganga ófatlaðra. Menntun er þó einn þeirra þátta sem til að mynda fólk með hreyfiskerðingu telur hvað mikilvægastan til að auka möguleika sína í lífinu. Skortur á menntun hefur neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku fatlaðs fólks en rannsóknir sýna hins vegar að eftir því sem menntun fatlaðs fólks er meiri því meiri líkur eru á því að það sé virkt á vinnumarkaði. Rannsóknir benda jafnframt til þess að hreyfihamlað fólk telji nauðsynlegt að öðlast hæstu prófgráður sem völ er á að fá til þess að verða fyllilega gjaldgengt á vinnumarkaði. Þetta eru gríðarlega mikilvæg mál því að við viljum jú að sem flestir séu virkir á vinnumarkaði og afli sér þar með lífsviðurværis og leggi til samfélagsins í gegnum skatta.

Hér á landi virðist sem betur fer stefna í rétta átt, alla vega hvað varðar menntun hreyfihamlaðs fólks þegar litið er til aðgengis þess að Háskóla Íslands. Líkamlegt aðgengi að menntastofnun, þ.e. að komast hreinlega inn í og um skólabyggingar, er einn liður í aðgengi að menntun og er kannski efni í aðra fyrirspurn til hæstv. ráðherra, en annað er að hafa efni á því að fara í nám. Fólk sem býr við fötlun og/eða örorku er líklegra til að búa við fátækt og það getur verið stór aðgengishindrun sem dregur úr því að fatlað fólk og öryrkjar fari í nám. Þess vegna vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra:

1. Hvaða afsláttur er öryrkjum veittur af innritunargjöldum í ríkisstyrktum háskólum? Er öryrkjum veittur sami afsláttur í þeim öllum?

2. Hver er stefna ráðherra varðandi afsláttarkjör til öryrkja af innritunargjöldum í þessum skólum?

Ég held að þetta sé mikilvægt innlegg í umræðuna um það hvernig við getum gert fatlað fólk og öryrkja virkara í okkar samfélagi.