144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nýframkvæmdir í vegamálum.

565. mál
[18:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Kristján Möller veit afar vel voru þeir fjármunir sem við höfðum töluvert miklir á fyrri helmingi erfiðleikaáranna til samgönguáætlunar sem hafði verið tryggð meðan við töldum að við hefðum töluvert meiri efni. Auðvitað var mjög gott að við gátum tryggt fé til þess, en hv. þingmaður veit alveg hvernig þetta mál er vaxið.

Ég tel að menn þurfi ekki að leggjast í þunglyndi strax, við skulum bíða eftir áætluninni og ræða hana þegar hún kemur fram, en ég vil samt segja sem mína skoðun — ég held að þingmenn sem þekkja til skoðana minna viti að ég er frekar framkvæmdaglöð manneskja þannig að ég mun að sjálfsögðu berjast mjög fyrir auknu fé til samgöngumála. Það vita félagar mínir við ríkisstjórnarborðið. Það mun ég gera. Ég ætla hins vegar engu að lofa upp í ermina á mér hvernig það gengur núna á þessum ákveðna tímapunkti, en það verður svo sannarlega gert. Ég mun ekki gefa neitt eftir í því.

Varðandi þær spurningar sem var beint til mín sérstaklega er það þannig að auðvitað skiptir öryggi öllu máli á vegum landsins, það er algjört grundvallaratriði. Vegakerfið er líka innviðakerfi fyrir atvinnulífið í landinu, ekki síst fyrir ferðaþjónustuna. Þarna liggja saman tveir þræðir sem við þurfum að vefa saman.

Nýframkvæmdir eru líka öryggismál. Það er líka þannig að þörf er á ákveðnum framkvæmdum í nýframkvæmdum vegna öryggismála. Hitt er annað mál að ástandið á vegunum er með þeim hætti núna eftir síðustu vetur, ég tala nú ekki um á suðvesturhorninu, að til verulegra vandræða horfir. Hvað varðar snjómoksturinn vitum við að þar fara mestu peningarnir reyndar á höfuðborgarsvæðið vegna þess að ófremdarástandið sem hefur verið í vetur er þvílíkt, þannig að við sjáum fram á að mikil fjárþörf er þar.

Varðandi Teigsskóginn er það mál ekki alveg á mínu borði akkúrat í augnablikinu. Það er núna hjá Skipulagsstofnun. Þegar við fáum fréttir af því, sem vonandi verður innan tíðar, mun ég að sjálfsögðu upplýsa menn um það.