144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

uppbygging lögreglunáms.

584. mál
[18:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þessar tillögur liggja fyrir og mér finnst þær vera mjög áhugaverðar. Eins og hér hefur komið fram er meginniðurstaðan sú að Lögregluskóli ríkisins skuli framvegis vera sjálfstæð eining og það er þetta með að leggja áherslu á fræðslu- og rannsóknarsetur, ég þarf ekki að endurtaka það sem hv. þingmaður sagði hvað það varðar. Og síðan það að námið verði fært upp á háskólastig og grunnmenntun lögreglumanns yrði tveggja ára bóklegt nám og eins árs starfsnám sem ljúki með baccalaureate-gráðu.

Nú skal ég vera mjög hreinskilin við hv. þingmann. Ég hef hreinlega þurft að ganga aðeins með þetta mál áður en ég hef getað myndað mér almennilega skoðun á því hvað ég tel best að gera. Ég deili þeim skoðunum með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að vel sé hugað að menntun lögreglumanna. Þeirra starf er svo sannarlega mjög mikilvægt og við þurfum að gæta þess að hafa það allt saman í heiðri. En ég hef ekki verið reiðubúin til þess að gifta mig neinum tillögum að þessu leyti endanlega og ég verða að fá þann tíma sem ég þarf til að meta það. Þess vegna vildi ég huga betur að inntaki námsins og menntun lögreglumannanna.

Undanfarin ár hefur þróunin verið sú að mikill meiri hluti þeirra Íslendinga sem hafa sótt um skólavist í skólanum eru með stúdentspróf, iðnmenntun eða hafa jafnvel lokið háskólaprófi. Ég legg áherslu á að þeir hafa líka haft iðnmenntun. Ljóst er að lögreglustarfið kallar annars vegar á vel menntaða, vel þjálfaða og vel útbúna lögreglumenn sem geta sinnt sem mestu af alhliða störfum lögreglunnar, en hins vegar kallar lögreglustarfið í auknum mæli á sérhæfingu. Ég vil líka leggja áherslu á sérmenntun og þjálfun hluta lögreglunnar og sérhæfð vinnubrögð við ákveðinn hluta af starfi hennar, hvort sem heldur er vegna almennra lögreglustarfa eða rannsókn mála.

Þá kemur líka að mikilvægi símenntunar þegar litið er til lögreglumanna, að þeir þurfa síðar á ævinni að fá aukna þekkingu. Mér finnst það skipta mjög miklu máli þegar við lítum til þess að þegar þeir eru komnir í ákveðin sérhæfðari störf verða þeir að geta aflað sér menntunar á því sviði.

Það var af þessum ástæðum sem ég ákvað að skipa þennan nýja starfshóp, sem var nú fyrst og fremst hugsaður meðan ég er á þessum meðgöngutíma sem ég er á hér enn þá varðandi þetta lögreglunám. Hann á að hafa það hlutverk að fara yfir innihald lögreglunáms hér á landi, bæði innihald grunnnáms og framhaldsnáms, og setja fram tillögur um með hvaða hætti megi efla námið þannig að það taki mið af samfélagsþörfum og sé í samræmi við þær aðgerðaáætlanir sem fyrir liggja. Þessi hópur verður væntanlega búinn að skila tillögum til mín 18. maí nk.

Af því að hér er spurt um þverpólitískt samráð var það alls ekki nein hugsun af minni hálfu að ganga fram hjá þverpólitískri samræðu. Ég vil varla segja að ég hafi leitað til viðkomandi aðila sem fulltrúa þingsins í sjálfu sér, heldur vildi ég bara fá að heyra ákveðin sjónarmið frá þessum tilteknu aðilum og þess vegna fékk ég þá í þetta starf á þessu stigi. Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að breið samstaða liggi fyrir um lögreglumenntunina og það samráð mun ég hafa. Ég legg mjög mikla áherslu á að það verði. En ég er alls ekki komin á neinn tímapunkt með þetta mál þannig að ég sé reiðubúin til að leggja fram þær spurningar sem ég vil frá minni hálfu leggja til inn í slíkt samráð. En ég er sú fyrsta og síðasta til að fallast á það með hv. þingmanni að það sé mjög brýnt að hafa samráð við fulltrúa allra þingflokka þegar vinnunni vindur fram.

Enn og aftur, svo að ég haldi áfram að nota kannski óheppilega íslensku við þetta viðfangsefni, þá er ég hvorki búin að gifta mig tillögunum né búin að ganga nógu lengi með þær til þess að geta svarað þessu á annan veg en þennan.