144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

betrun í fangelsum og aðstoð að lokinni afplánun.

586. mál
[19:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna viðhorfi hæstv. ráðherra í málaflokknum. Hvað varðar þriðju spurningu mína, þ.e. hvaða aðstoð standi föngum til boða eftir að afplánun lýkur, held ég að þar sé vandamál sem við gætum leyst, en þá helst ef við lítum á það vandamál sérstaklega út frá forsendum þess einstaklings sem er að koma úr fangelsi, sem sé ekki þannig að það sé einfaldlega spurning um almenn velferðarúrræði, þ.e. í samvinnu við það sem velferðarráðuneytið stendur fyrir, heldur sem hluti af prógramminu við það að fullnusta refsingu. Því gleður það mig mjög að hæstv. ráðherra skuli hafa verið í samtölum við velferðarráðherra, ef ég skil rétt, eða einhverja innan velferðarráðuneytisins um þau atriði og hvetja til dáða í þeim efnum, því að sennilega er það það róttækasta og besta sem við gætum gert að mínu mati í þágu betrunar, fyrir utan það að halda áfram að reyna að gera betur í tveimur málaflokkum, annars vegar í menntun og hins vegar í vinnu. Okkur er tíðrætt um menntun sem er gott og blessað og mikilvægt, en við gleymum hins vegar stundum að tala um vinnuna. Þannig er með málefni meðal fanga. Það er mjög erfitt fyrir þá að fá vinnu meðan þeir eru í fangelsi því mjög lítið er um vinnu að hafa. Fangelsið eru kærð við minnsta tilefni og þess vegna kannski fullt tilefni til þess að fara að skilgreina fangelsi sem verndaða vinnustaði til að reyna að búa til einhvers konar rútínu fyrir þá sem vilja vinna en ekki endilega mennta sig í einhverju bóknámi.

En enn og aftur, það gleður mig að hæstv. ráðherra skuli taka svona í þessar spurningar. En þó verð ég að segja líka að ég tók ekki eftir því þegar ég las drögin að frumvarpinu (Forseti hringir.) sem um ræðir að þar sé mikið um betrun. Því velti ég fyrir mér hvort hæstv. innanríkisráðherra sé reiðubúin til að skoða þau mál enn betur.