144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

eftirlit með gistirými.

617. mál
[19:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Ég gerði mér grein fyrir því þegar þessi fyrirspurn var lögð fram að á vissan hátt væri erfitt fyrir hæstv. ráðherra að svara spurningunum vegna þess að þetta skarast á milli ráðuneyta, það hafði mér verið bent á. Ég vil hins vegar benda hæstv. ráðherra á að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef sjálfur aflað mér, ekki síst í tali við þá sem eru í greininni, munu vera rúmlega 1.000 íbúðir og herbergi á höfuðborgarsvæðinu sem eru leigð út án þess að þau séu skráð.

Ég gerði mér það til dundurs að fara inn á Airbnb í morgun og þar voru rúmlega 500 eignir skráðar, þ.e. til leigu. Mér er líka kunnugt um að samtök ferðaþjónustunnar hafa sent stjórnvöldum, væntanlega atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, lista yfir þá aðila sem þeir vita til þess að leigja út án þess að vera með viðeigandi skráningar. Því segi ég að þó svo að lögreglan sé kannski ekki með frumkvæðisskyldu hvað þetta varðar, auðvitað getur lögreglan tekið upp frumkvæðismál eftir því sem hún hefur tækifæri til, finnst mér einboðið að þegar samtök ferðaþjónustunnar senda slíka lista til stjórnvalda sé það í raun og veru ákall um að stjórnvöld taki af skarið og herði eftirlit með starfseminni. Það er náttúrlega alveg ljóst að þar sem fyrir liggur heimilisfang, símanúmer, tölvunetfang o.s.frv., eins og t.d. í Airbnb-gistingum, ætti lögreglunni að vera í lófa lagið að fylgjast með skráningunum, bara með reglulegu eftirliti eftir póstnúmerum. Við getum heldur ekki gleymt því (Forseti hringir.) að það liggur sekt við því að vera með óskráða íbúð eða herbergi til leigu. Þar koma tekjur í ríkissjóð á móti þannig að ég mundi fagna því mjög og (Forseti hringir.) hvet ráðherrann til að beita sér fyrir aukaframlagi (Forseti hringir.) í millitíðinni til lögreglunnar til að sinna því eftirliti.