144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera það að umtalsefni hversu dapurleg staðan er hvað varðar ástand vegakerfisins og samgöngumála og sömuleiðis þá staðreynd að samgönguáætlun hefur ekki enn litið dagsins ljós. Nú þekkjum við að vegamálin og framkvæmdahliðin hafa fengið dapurlega afgreiðslu í tvennum síðustu fjárlögum í tíð þessarar ríkisstjórnar og það er auðvitað gagnrýnivert, en mestu skiptir þó að horfast í augu við ástandið eins og það er, að vegakerfið liggur undir stórskemmdum. Það er að grotna niður og verulegt tjón er að verða þannig að við erum svo sannarlega að pissa í skóinn okkar hvað það varðar að leggja ekki a.m.k. fjármuni til þess að hægt sé að viðhalda þó því vegakerfi sem til staðar er í landinu, þótt maður horfi fram hjá nýframkvæmdum. Þær voru einmitt ræddar í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær og var satt best að segja heldur dapurleg niðurstaða og dapurlegur blær yfir allri þeirri umræðu.

Sama veruleika birtir okkur þetta hefti hér, yfirlit yfir verkefni sem stendur til að ráðast í frá Vegagerðinni. Það vill reyndar svo neyðarlega til að fréttabréfið heitir Framkvæmdafréttir. Ég held að þurfi nú að fara að endurskoða nafngiftina á þessu ágæta blaði frá Vegagerðinni því að það stendur ekki undir nafni lengur sem framkvæmdafréttir. Hvað er þar helst verið að boða? Jú, það eru endurbætur á hringvegi 1, endurbætur á Biskupstungnabraut, endurbætur á Skálholtsvegi, fræsun og afrétting, endurbætur þar, hjólfarafyllingar og axlaviðgerðir. Þetta eru titlarnir á framkvæmdunum sem listaðir eru upp hérna, allt saman bráðabirgðareddingar vegna þess að vegakerfið er að hrynja.

Það er ekkert um annað að ræða en að horfast í augu við að við verðum að setja verulega aukna fjármuni í vegakerfið og það strax á þessu ári. Ég vona svo sannarlega að þingheimur, þá seint hann fær samgönguáætlunina, taki málið í sínar hendur. Verði hún jafn dapurleg og ætla má af frammistöðu ríkisstjórnarinnar fram (Forseti hringir.) að þessu (Forseti hringir.) verður að gera breytingar á henni. Þetta gengur ekki.