144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo eins og ég sagði áðan og reyndi að útskýra fyrir þingheimi og þjóð að það er auðvitað flókin afstaða að telja að hagsmunum okkar sé betur borgið innan Evrópusambandsins en vera eigi að síður reiðubúin að vinna því gagn ef tillagan verður samþykkt og það sé til að mynda svo að þjóðin vilji halda viðræðum áfram. Þá liti ég á það sem hlutskipti okkar að fá sem besta niðurstöðu úr slíkum niðurstöðum fyrir þjóðina því þar vægju hagsmunir þjóðarinnar þyngst og væru ofar öllum öðrum hagsmunum.

Síðan tel ég og það er mín afstaða að við getum haft samning á borðinu, hann getur verið góður eða slæmur og allt það, en ég hef samt sem áður ákveðna prinsippafstöðu í þessu máli og hún er enn þá sú að ég tel ekki rétt að við göngum í Evrópusambandið. Ég skil það hins vegar mætavel að þjóðin geri kröfu um það og hún fái að taka þá ákvörðun fyrir sjálfa sig og það sé ekki eingöngu Alþingis að ákveða frekar en í öðrum stórum málum. (Forseti hringir.) Ég þarf kannski að taka aðra ræðu um þessi mál síðar í dag til að útskýra þetta betur (Forseti hringir.) en þarna tel ég að við þyrftum að sjálfsögðu að vinna fyrst og fremst að hagsmunum þjóðarinnar.