144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta líkleg kenning. Það var svolítið merkilegt hérna fyrir ári að ráðherrar í ríkisstjórninni höfðu margoft auglýst eftir því að fram þyrfti að fara efnisleg umræða um hvort Ísland ætti að gerast aðili að Evrópusambandinu, eða hvort hag Íslands væri best borgið þar og þar fram eftir götunum. Svo kom út skýrsla frá Hagfræðistofnun og hin efnislega umræða hófst og margir fögnuðu henni, þar á meðal ég, loksins. Nú skulum við ræða þetta mál.

Daginn eftir kom tillaga frá ríkisstjórninni um að slíta viðræðunum. Við skulum ekkert vera að ræða þetta efnislega. Við skulum bara slíta þessu. Vegna hvers? Jú, ég held að það hafi meðal annars verið vegna þess að viðræðurnar gengu einfaldlega vel. Þær gengu einfaldlega of vel fyrir þau sérhagsmunaöfl sem standa á bak við þessa ríkisstjórn sem vilja ekki fara inn í Evrópusambandið út af sínum eigin hagsmunum. Skýrsla Hagfræðistofnunar leiddi þetta í ljós. Það sama gerði skýrsla Alþjóðamálastofnunar nokkrum vikum síðar.

Mér finnast það til dæmis stórtíðindi í skýrslu Hagfræðistofnunar hvernig fjallað er um landbúnaðarmálin. Stórtíðindi. Síðan eru alls konar góðar upprifjanir í þessu. Allir þeir sem voru að tala um aðlögunarsamninga, þeir tala ekki um þá lengur. Það er alveg skýrt, eftir allar þessar skýrslugerðir, að ekkert breyttist í íslensku samfélagi við það að vera í þessum viðræðum. Það var engin aðlögun sem átti sér stað, enda var það eitt af því fyrsta sem viðræðunefndin fékk fram skýra yfirlýsingu um að Ísland mundi ekki breyta neinu fyrr en að samningur hefði verið samþykktur. Það var bókað og eitt og annað í þessu; menn höfðu verið að segja að við þyrftum öll að ganga í her í Evrópu, það kemur skýrt fram að þess þarf ekki. Alls konar kenningar voru uppi um að ESB væri einhvers konar samsæri 28 ríkja sem ásæktust auðlindir okkar, þetta er allt kveðið í kútinn í þessum skýrslum.

Auðvitað vilja menn ekki ræða þetta. Menn hafa aldrei viljað ræða staðreyndir málsins. Menn hafa heldur ekki viljað ræða það að samningsstaða Íslendinga, vegna sérstöðu þeirra, í sjávarútvegsmálum er mjög sterk.